top of page
Search

Ef þú átt draum

Updated: May 26, 2019

Kristborg Bóel skrifar.


Er ekki áhugamanneskja um kvikmyndir en á sterkar kvenfyrirmyndir úr öllum áttum.


Ég hef einstaklega lítinn áhuga á kvikmyndum og skrái það nánast í ferilskrána mína ef ég afreka það að horfa á heila mynd. Það var þó á dögunum, sama dag og Óskarsverðlaunin voru veitt, að vinkona mín bauð mér að horfa með sér á myndina A Star is Born með Lady Gaga og Bradley Cooper, sem tilnefnd var til verðlauna í nokkrum flokkum. Ég horfði með öðru auganum og prjónaði með hinu. Mér þótti myndin alveg ágæt, þó ekki þannig að mig langi að horfa á hana alla morgna, í hádeginu og á kvöldin eins og sumir hafa talað um.


Fannst Gaga tala til mín.


Lady Gaga, sem er betur þekkt fyrir tónlist sína, fangaði mig hins vegar með sterkri nærveru sinni og sannfærandi leik. Hún hreppti þó ekki Óskarinn fyrir bestu leikkonuna í aðalhlutverki, en stóð uppi sem sigurvegari í kosningunni um besta lagið, Shallow. Hún sigraði mig svo endanlega með ræðunni sinni. Hún sagðist hafa lagt á sig ómælda vinnu til þess að láta drauma sína rætast; að slá í gegn sem tónlistar- og leikkona. Mér fannst hún vera að tala til mín þegar hún tók við styttunni og sagði:

„Þetta snýst ekki um að vinna, heldur að gefast ekki upp. Ef þú átt draum skaltu berjast fyrir honum, en það krefst bæði aga og ástríðu. Þetta snýst heldur ekki um hversu oft þér er hafnað eða hversu oft þú fellur, heldur um það hversu oft þú stendur upp og hefur hugrekki til að halda áfram.“

Ég sá einnig brot úr öðru viðtali við hana þar sem hún sagðist einu sinni hafa átt kærasta sem sagði henni að hún ætti aldrei eftir að ná langt í sínu fagi. Hún svaraði honum þannig til, að einn daginn, þegar þau væru hætt saman ætti hann ekki eftir að geta pantað sér kaffibolla nokkursstaðar án þess að sjá eða heyra hana syngja. Hún sagði jafnframt;


„Empower yourself. Be your own Cheerleader. Believe in Yourself. Empowered Women empower Women.“


Já, Lady Gaga hefur bæst í hóp minna sterku kvenfyrirmynda. Þær sem ég hef haft í huga mér lengst allra eru sómakonurnar Vigdís Finnbogadottir og amma mín Jóhanna, sem lést árið 2006.


Draumur minn um að hitta Vigdísi rættist.


Ég var svo heppin að fá að heimsækja Vigdísi á heimili hennar nú í febrúar og þar með rættist draumur sem ég hef lengi átt. Við spjölluðum um heima og geima, aðallega þó kvenfrelsi, djörfung, hug og trú á eigið ágæti. Allt samtalið var einstaklega áhrifamikið og hvetjandi fyrir mig sem manneskju. Það er þó tvennt sem ég ætla sérstaklega að taka með mér áfram út í lífið af orðum Vigdísar.

Annars vegar sagði hún að maður yrði að trúa á sig alla leið og aldrei að biðjast afsökunar á sjáfum sér. Þegar ég svo spurði hana út í öll þau frumkvöðlaverkefni sem hún hefur ýtt úr vör sagði hún: „Ég hika aldrei!"

Amma mín var stórmerkileg manneskja, kona sem fór sínar eigin leiðir og lét orðróm og mótbárur samfélagsins sem vind um eyru þjóta.


Já, listinn minn samanstendur af allskonar konum sem allar eiga það sameiginlegt að gefa mér innblástur, kjark, von og trú um að mér sé allt mögulegt.


Ein þeirra er vinkona mín, Andrea Eyland, sem hlaut Edduverðlaunin fyrir mannlífsþátt ársins 2018 fyrir skemmstu, þáttinn Líf kviknar. Andrea er hamhleypa til verka og framkvæmir það sem þarf til þess að draumar hennar verði að veruleika. Í viðtali sem tekið var við hana eftir að þátturinn hafði hlotið tvær tilnefningar, en áður en verðlaunin voru veitt, sagðist hún vera búin að kaupa sér kjól, semja ræðuna og sjá það ljóslifandi fyrir sér þegar hún tæki við verðlaununum.

„Ég skil ekki hvernig ég ætti að fara að því, bæði að fá tilnefningu eða fá verðlaunin ef ég væri ekki búin að sjá það fyrir mér. Það verður allt svo miklu auðveldara og skemmtilegra ef þú sérð draumana fyrir þér verða að veruleika.“

Þetta er aðferð sem ég hef notað sjálf síðustu ár, að sjá fyrir mér það sem ég vil að gerist. Í alvöru, það virkar, eða í það minnsta hjálpar til. Þetta snýr allt að því sama. Hljóta ekki að vera mun meiri líkur á því að okkur takist það sem við ætlum okkur ef við trúum svo mikið á að við náum markinu að við sjáum það ljóslifandi fyrir okkur?


En eins og Gaga segir svo réttilega, þá krefst það mikillar vinnu, aga og óbilandi trúar á verkefnið. Ef að við höfum ekki trú á því sem við erum að gera eða því sem við ætlum okkur, af hverju ættu aðrir að hafa það?


Við þurfum einnig sjálf að vinna vinnuna, það gerir það enginn fyrir okkur. Auðvitað erum við oftar en ekki í samstarfi við annað fólk en þegar öllu er á botninn hvolft stendur allt of fellur með okkur sjálfum, en við uppskerum líka eins og við sáum.


Við megum ekki láta skoðanir annarra hafa áhrif á okkur.


Ekki heldur okkar eigin efasemdaraddir. Við verðum að trúa á okkur sjálf, við verðum að vera okkar eigin klappstýrur.


Draumar geta verið allskonar, stórir, litlir, snúnir og einfaldir. Suma langar að heimsækja einhvern ákveðin stað í heiminum. Aðra að læra að elda indverskan mat. Einhvern dreymir um að læra að prjóna og annan að ganga á Everest.

Ef þú átt draum, skaltu berjast fyrir honum. Lífið er stutt og lífið er núna. Hvað getur þú gert strax í dag til þess að taka fyrsta skerfið í átt að þínum?


71 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page